andargift

Merkur kveðskapur úr ferðum okkar.

Ljóð eftir Elísabetu Jökulsdóttur

Manstu þegar við sátum í sólskininu
á veitingastaðnum við sjóinn í Líbanon,
og borðuðum krabba, sverðfiska og sardínur,
og það var hlegið svo mikið,
og skálað svo mikið
og talað svo mikið.

Eða í Biblos þarsem Fönikíumenn
höfðu hreiðrað um sig
og ég settist inní einn reitinn
og hitti þar konu úr fortíðinni
og spurði hana um hvað lífið hefði snúist
fyrir fimm þúsund árum
og hún sagði: Við erum að bíða eftir betri tíð.

Og þarna fann ég hjartastein í gömlu leikhúsi,
hvítan hjartastein og annað hjarta inní honum,
og nú er hann í hjartasteinasafninu mínu
en hjarta mitt grætur fyrir Líbanon.

Við gengum um göturnar
og allir svo kátir að sjá okkur,
fórum í flóttamannabúðirnar
og gátum ekki tekið með okkur sársaukann
svo hann elti okkur,
skoðuðum fjöldagröfina
sem ég hélt að væri bara í fréttunum,
heimstískuna á torgum,
stimamjúka þjóna og fagrar byggingar,
sumar með kúlnagötum,
og uppí hæðirnar
að Maríustyttunni
sem gnæfði yfir Beirut.

Og þarna hitti ég á götuhorni
amerískan hermann sem hafði farið úr hernum
til að giftast Arabastúlkunni sinni
og afgreiða í búðinni hennar,
en aðallega tilað brosa og laða að kúnnana,
við þræddum fjallvegi
þar sem kúrðu lítil þorp
og fólkið talaði biblíumál,
ég drakk heilagt vatn í klaustri,
það kom auðvitað dúfa
og úlfaldar í eyðimörkinni,
enn mátti finna rómverska guði
önnum kafna í sínum rústum,
og allstaðar komu börnin þjótandi
einsog eldibrandar með slæður og klúta,
og brosin sín frá hjarta til hjarta.

Nú rignir yfir þau sprengjunum
og flísarnar skerast inní hjartað,
ég hef komið til Líbanon
þessvegna grætur hjarta mitt,

og þú þekkir mig.
Sr. Sigfinnur Þorleifsson var meðal þátttakenda í Sýrlands/Jórdaníuferð 10.-25.apríl. Í þeirri ferð æjum við jafnan í Bagdad Cafe sem er í miðri austureyðimörkinni, á leið til Palmyra. Margir hrífast af þeim stað. Eftir komu þangað orti Sigfinnur:

Bagdad Café

Á Bagdad Café er búið vel
af bræðrum tveim og þeirra konum
og engan stað ég annan tel
ofar standa mínum vonum.

Á Bagdad Café var byrjað smátt
og bjástrað fyrst með nokkrar rollur,
hænur um varpann hlupu brátt
hamingjueggin fylltu dollur.

Á Bagdad Café best ég veit
blessað kaffið mædda hressa
og það er allt í þeirri sveit
þekkilegt eins og hugljúf messa.

Á Bagdad Café er betra líf
en barningur í trylltri veröld,
í stórborgum er stöðugt kíf
stynja okkar sálarkeröld.

Á Bagdad Café var bikar minn
barmafylltur af sálarfriði
og þyrsti mig síðar þangað inn
þá get ég bergt á gömlum miði.

Á Bagdad Café.

Seinna í þessari ferð er vitjað Símonarkirkjunnar sem stendur á hrjóstrugum stað norður af Aleppo. Í frumkristni reisti meinlætamaðurinn Símon sér súlu þar því hann vildi frið til að iðka trú sína.
Eftir að við höfðum verið þar orti sr. Sigfinnur:

Símon á súlunni

Símon var á súlunni
sjödægrin löng
hvergi á jarðarkúlunni
kvölin var jafn ströng.

hvergi á jarðarkúlunni
konur fengu þá
að renna sér á súlunni
síðkvöldum á.

hvergi á jarðarkúlunni
hvorki hér né þar
setið var á súlunni
síðan þetta var.

Símon var á súlunni
en síglaður þó
komst frá jarðarkúlunni
kættist mjög og dó.
Í ferðinni okkar 8.-26.maí 2005 til Jemen og Jórdaníu varð til sérstaklega fjölbreytilegur kveðskapur. Einar Þorsteinsson setti saman hverja limru af annarri við ýmis tækifæri. Hér eru fáein sýnishorn.

Þegar honum blöskraði kaupgleðin sagði hann:
Karlarnir raupa
en konurnar hlaupa
þær súkkinu ná
þeir indversku segja vá
en konurnar kjólana kaupa.

Í eitt skipti fannst JK bílstjóri í forystubíl fara nokkuð greitt og ræddi það við Mohammed leiðsögumann.
Þá kvað Einar:

Abdulwahid fór mikinn
í baksæti fundum við þytinn
þá átti Jóhanna hjá leið
svei mér hún býsna var reið
og vel til hún tuktaði gripinn.

Og ekki linnti kaupgleði þegar til Jórdaníu kom og Einar skrifaði:

Í Jórdaníu eru svo gamman
ekki síst að koma til Amman
þar voru keyptir kjólar
í slíkri kaupsýslu eru góðir skólar
þessu stýrir öllu langamman.

Nokkuð af öðrum toga var kveðskapur Elísabetar en hún flutti bílstjórum í Jemen í ferðalok ljóðið

Gangsters of the Universe

Gangsters of the Universe
driving with the stars
as in the mountains
heros in the sky

dancing in the dessert
along the dancing road.

Gangsters of the Universe
lovers of the Earth

Using the gatt formula.

they are the formula drivers

dont care to win
too busy loving.

Elísabet orti einnig

Yemeni people and I
I weep
because I see the pain
in the people of Yemen

and they give me a smile
because they see
the pain in me.

Brosin í Jemen
Svo byrjar þetta fólk að brosa
þetta fólk sem á ekki neitt,

ég sem er af herraþjóðinni,
ég ræð ekki yfir brosinu

Svo það bara blæðir.


World of no reason

Love takes you
to the world of no reason,

so does Yemen,

so either Yemen is love

or there is another road
to that world.

Guðmundur Pétursson sem fór í Sýrlands og Líbanonsferð í fyrra var með í för. Honum varð að orði:

Jóhanna sýnir mér Sanaa
sól þó að kinnar brenni
það er að verða að vana
að vera á eftir henni.
Innblástur í ferðinni til Jemen og Jórdaníu

Með góðfúslegu leyfi höfundarins birtum við þennan ágæta kveðskap sem varð til hjá mætri þingkonu í ferðinni til Jemen og Jórdaníu.
Hún lætur skýringar fylgja með á nokkrum stöðum:

Hér koma þessar vísur sem ég hnoðaði saman, flestum í akstri um fjöll og dali í aftursæti landkrúserjappa, óbundin, enda engin bílbelti. Nokkrar þeirra þurfa skýringa við svo ókunnugir skilji hvað verið er að fjalla um. Leirburðinn ætlaði ég að lesa upp á kveðjuhófi í Jemen en vegna aðstæðna á veitingastaðnum hætti ég við og lét síðan verða af þessu síðasta kvöldið í Jórdaníu.

Sanaa stendur álíka hátt og hæsti tindur Öræfajökuls, loft var þar þunnt sem olli mæði, þar var líka mikill trúarhiti í mönnum og hélt hávær bænalestur nótt og dag vöku fyrir sumum þeim sem voru í herbergjum sem sneru út að helstu moskum borgarinnar.

Jemen það er algert æði,
oss í Sana hrjáir mæði.
Á Hilltán við Einar búum bæði
í brjálæðislegu - ó-næði!

Á hásléttunni höldum oss,
hér er gott að vera.
Úlfaldar, geitur og einhver hross
éta, plægja og bera.

Araabía er engu lík.
Allah okkar gætir.
Jóhanna af reynslu rík
ráðleggur og kætir.

Á leiðinni til Taiz, upp á Saberfjall og að Rauðahafi með Said fararstjóra lentum við í ýmsum ævintýrum. Klósettin arabísku kallast spyrnur á góðri íslensku en þau eru hola í gólf og stundum pedalar til að standa á. Ihman Jæjason og Arwa drottning komu þar einnig við sögu. Gatt er létt jemenskt dóp sem menn troða dag hvern í aðra kinn sín og tyggja.

Bak við stóran stein
sprændi hver og ein.
"Þetta er skárr'a en spyrna,"
sagði fröken Birna.

Said samfararstjóri
segir okkur frá
í svaka akstri, og slóri
Saberfjalli á.

Helga og Hildur stíga dans,
hnífum bregða á loft.
Þegar við gerum stuttan stans
skemmta þær oss oft.

Bílstjórar úr miklu að moða
og meina að enginn fatti
þegar þeir tyggja og troða
trantinn út af gatti.

Ihman Akmed Jæjason
eitt sinn landsins mesta von,
átti dyngju af drasli
dó í mesta basli.

Áður ríkti Arwa
sem ætíð var að garfa.
Við átum kjúlla og karfa
og keyptum gripi þarfa!

Rerum út á Rauðahaf
rusl og drasl á ströndinni.
Konur fóru í bólakaf
en karlar stóðu á öndinni.

Landað eins og stórlúðu,
lá svo eins og skata.
Heimamennirnir hugprúðu
Helgu sáu án fata.

Á Rauðhaf í rennifæri
rukum út á bátum.
Komust sumir í kvenmannslæri
með kátínu og látum.

Synt var út um allan sjó,
sumum fannst þá komið nóg.
Á kaffihúsi brauðið bjó
á blöðum dagsins- gömlum þó.

Í Jemen eru konur allar með blæjur og ungar stúlkur einnig en karlar með skreytt belti og jambiahnífa um sig miðja og klúta hnýtta um höfuð.

þótt systur okkar sæjum,
svifu þær um hljótt
byrgðar undir blæjum
blakkar eins og nótt.

En karlarnir með klúta
og kuta sér við mitti,
þeir ávallt Allah lúta,
allir sem ég hitti.

Í Jórdaníu komumst við nær nútímanum í mörgum skilningi, heimsóttum Petru, hina bleiku týndu borg Nabatea, með Samma fararstjóra, flutum í brimsöltu Dauðhafinu, bjuggum á Marriott og enduðum í höfuðborginni Amman þar sem þessi bragur allur var lesinn í kveðjuhófi.

Praktugleg var Petra bleik
príluðum með Samma sæta.
Fegurðin hún fæsta sveik
og fornöldinni þar að mæta.

Marriott er mesta slot
mitt við Dauðahaf,
fóru landar þar á flot
en fengust ekki í kaf.

Amman er vor endastöð
allir eru í góðu stuði.
Heim á leið við höldum glöð
og hættum þessu ferðapuði.


Kærar þakkir fyrir frábæra ævintýraferð!
Ásta R. Jóhannesdóttir
Limrur Damaskussa
Flutt síðasta kvöld aprílhópsins í veislunni í Mir Khan í Junieh í Líbanon 16.apr.2004

Ausið við höfum úr sögunnar smiðju
og sannlega metið þá gagnlegu iðju.
Í okkar augum
og næmustu taugum
breyst hefur Gyða í klassiska gyðju

Eygló vill margfalda mann sér í vil
og magna þá alla og koma þeim til.
Sagt er að sönnu
um séra Jóhönnu:
gera þarf þeirri snót sömu skil
Andagift í Sýrlands/Líbanonsferðum

Ástæða er til að setja inn á síðuna hinn merka kveðskap sem hefur orðið til í síðustu tveimur ferðum til Sýrlands og Líbanons

Eftir Palmyrudvöl í septemberferð í fyrra og kvöldverð í bedúínatjaldinu þar skóp JK þennan söngtexta sem flytjist undir lagi Litlu flugu Sigfúsar:

Við bedútjaldið biðu nokkrir sveinar
og börðu tæk og tól af stakri kúnst
inni gargaði grillað lamb á teini
og gypsibólgupíur hvergi nær
En þá kom Gunna og gekk í brúðardansinn
og gleðin söng á ný í þessum hóp
Við enduðum í vatnspípunnar vímu
og vissum ekki baun í okkar haus

Í sömu ferð samdi Linda Vilhjálmsdóttir þessa limru á leið frá Damaskus til Beirut 15.sept 2003

Við tilbiðjum Jóhönnu og Jasmin
já- og Basjar og Asma eru stórfín
í þeirra Arabaríki
er engin áfengissýki
enda kunna þeir ekkert á rauðvín

Í ferðinni sem nú er nýlokið fékk Damaskussi, yfir sig andann ekki einu sinni heldur tvisvar

Limrur tvær sem fluttar voru síðasta kvöldið fyrir heimför en áður hafði verið kyrjaður bragur hans:

Sumar á Sýrlandi

Um Líbanon og Sýrland alltaf segi
að sennilega kæmi að þeim degi
er kjarnakonan Jóhanna setti saman lið
að sækja þessar slóðir heim og fræð' um annan sið.
Ferðalag stunda garpar góðir
að gösla saman um ævafornar slóðir
Ferðalag

Hvolfþök, rústsir, hof og gamlar súlur
hallarbákn og annarlegar kúlur
bar hópsins fyrir augun, allt undarlegt það var
en upplýstist að lokum þá er skýrðu út kerlingar
Svannaval, síst má án þess vera
þær svara öllu- til þess að gera
Svannaval

Svo nú er hlustað, hugsað, pælt og gapað
og horft á allt sem Allah hefur skapað
en stærst er furða nokkur, af öðrum undrum ber
er eyrnarsnepli Einar stakk í hlustina á sjálfum sér.
Guðrúnum sjö fannst það svo ansi sniðugt
að sjá hve hljóðtól gæti verið liðugt
Guðrúnum

Upp og niður örlög geta rokkað
og upp og niður fleira getur brokkað.
Hjá Kristínu það gerðist og kunni engin ráð
að kasta bæði upp og niður, vera þó alveg gáð
Gott væri að eiga er ógnir fara að geysa
eiginmann sem vanda kynni að leysa
vandamann

Manni lærist margvíslegt með valdi
magadans í rútu eða tjaldi
og þegar svo á hótelum herbergi eru þröng
þá hvíla nær hvort öðru eldri pör með nýjum söng
Manneskjan alls staðar er mannleg
mennskan allstaðar blífur raunveruleg
Manneskjan

Dansinn dunar oft af ýmsu tagi
með afleiðingum stundum vart í lagi
er skemmst að minnast höfuðs skírarans
er skömmin litla Salómi, hún steig sinn fræga dans
Kvisast kviðlingar milli landa
er kveða um misheita eyðisanda
Kviðlingar

Stirfinn úlfaldi er engin stórfrétt
stólar fljúga og skúffur hafa klósett.
Af veröldinni lærum, af visku eflumst fljótt
og vökum svo af undrum næstum aðrahverja nótt
Mönnum batnandi er best að lifa
þótt batavon þyki sein að tifa
Batavon

Oft er gott að hírast heimaalinn
og heiminn telja mismunandi galinn.
Við ætíð skyldum efast, slíkt allt oss kemur við
Ég held oss væri heldur nær að hugsa um réttlætið
Réttlætið, það er risaskepna
og rangt það sé bara fyrir heppna
Réttlætið

Að ferðast um í framandlegum löndum
er fólk er að hnýta þjóðir sterkum böndum.
Á Sýrlandi sem víðar slíkt aldrei er orðin tóm
hvar saga mannkyns æðir um á sjötíumílnaskóm
Samviskan gjarnan vill þá gárast
en gefur von um að málið klárast
Samviskan

Ljúflings höfum sagnasjóða notið
með snillings hjálp um víðar lendur þotið
og villingurinn ljúfi með sjarma saddi hóp
en sagnaþulur veslings Einars hugarangist skóp
Á öllum stöðum þar vinir vakna
við vísast komum til með að sakna
Söknuður

En við svo frökk um stoðir þessar stússum
stærilæti og hjátrú burtu rýmum.
Hér lífsmyndir við fengum og lífssýn hér um bil
Líbanons og Sýrlands vinahópur er nú til.
Frá þeim hópi hefst tregasöngur
brátt heim á leið og " aftur að fara í göngur"
Heimáleið.