andargift

Merkur kveðskapur úr ferðum okkar.

Innblástur í ferðinni til Jemen og Jórdaníu

Með góðfúslegu leyfi höfundarins birtum við þennan ágæta kveðskap sem varð til hjá mætri þingkonu í ferðinni til Jemen og Jórdaníu.
Hún lætur skýringar fylgja með á nokkrum stöðum:

Hér koma þessar vísur sem ég hnoðaði saman, flestum í akstri um fjöll og dali í aftursæti landkrúserjappa, óbundin, enda engin bílbelti. Nokkrar þeirra þurfa skýringa við svo ókunnugir skilji hvað verið er að fjalla um. Leirburðinn ætlaði ég að lesa upp á kveðjuhófi í Jemen en vegna aðstæðna á veitingastaðnum hætti ég við og lét síðan verða af þessu síðasta kvöldið í Jórdaníu.

Sanaa stendur álíka hátt og hæsti tindur Öræfajökuls, loft var þar þunnt sem olli mæði, þar var líka mikill trúarhiti í mönnum og hélt hávær bænalestur nótt og dag vöku fyrir sumum þeim sem voru í herbergjum sem sneru út að helstu moskum borgarinnar.

Jemen það er algert æði,
oss í Sana hrjáir mæði.
Á Hilltán við Einar búum bæði
í brjálæðislegu - ó-næði!

Á hásléttunni höldum oss,
hér er gott að vera.
Úlfaldar, geitur og einhver hross
éta, plægja og bera.

Araabía er engu lík.
Allah okkar gætir.
Jóhanna af reynslu rík
ráðleggur og kætir.

Á leiðinni til Taiz, upp á Saberfjall og að Rauðahafi með Said fararstjóra lentum við í ýmsum ævintýrum. Klósettin arabísku kallast spyrnur á góðri íslensku en þau eru hola í gólf og stundum pedalar til að standa á. Ihman Jæjason og Arwa drottning komu þar einnig við sögu. Gatt er létt jemenskt dóp sem menn troða dag hvern í aðra kinn sín og tyggja.

Bak við stóran stein
sprændi hver og ein.
"Þetta er skárr'a en spyrna,"
sagði fröken Birna.

Said samfararstjóri
segir okkur frá
í svaka akstri, og slóri
Saberfjalli á.

Helga og Hildur stíga dans,
hnífum bregða á loft.
Þegar við gerum stuttan stans
skemmta þær oss oft.

Bílstjórar úr miklu að moða
og meina að enginn fatti
þegar þeir tyggja og troða
trantinn út af gatti.

Ihman Akmed Jæjason
eitt sinn landsins mesta von,
átti dyngju af drasli
dó í mesta basli.

Áður ríkti Arwa
sem ætíð var að garfa.
Við átum kjúlla og karfa
og keyptum gripi þarfa!

Rerum út á Rauðahaf
rusl og drasl á ströndinni.
Konur fóru í bólakaf
en karlar stóðu á öndinni.

Landað eins og stórlúðu,
lá svo eins og skata.
Heimamennirnir hugprúðu
Helgu sáu án fata.

Á Rauðhaf í rennifæri
rukum út á bátum.
Komust sumir í kvenmannslæri
með kátínu og látum.

Synt var út um allan sjó,
sumum fannst þá komið nóg.
Á kaffihúsi brauðið bjó
á blöðum dagsins- gömlum þó.

Í Jemen eru konur allar með blæjur og ungar stúlkur einnig en karlar með skreytt belti og jambiahnífa um sig miðja og klúta hnýtta um höfuð.

þótt systur okkar sæjum,
svifu þær um hljótt
byrgðar undir blæjum
blakkar eins og nótt.

En karlarnir með klúta
og kuta sér við mitti,
þeir ávallt Allah lúta,
allir sem ég hitti.

Í Jórdaníu komumst við nær nútímanum í mörgum skilningi, heimsóttum Petru, hina bleiku týndu borg Nabatea, með Samma fararstjóra, flutum í brimsöltu Dauðhafinu, bjuggum á Marriott og enduðum í höfuðborginni Amman þar sem þessi bragur allur var lesinn í kveðjuhófi.

Praktugleg var Petra bleik
príluðum með Samma sæta.
Fegurðin hún fæsta sveik
og fornöldinni þar að mæta.

Marriott er mesta slot
mitt við Dauðahaf,
fóru landar þar á flot
en fengust ekki í kaf.

Amman er vor endastöð
allir eru í góðu stuði.
Heim á leið við höldum glöð
og hættum þessu ferðapuði.


Kærar þakkir fyrir frábæra ævintýraferð!
Ásta R. Jóhannesdóttir