andargift

Merkur kveðskapur úr ferðum okkar.

Sr. Sigfinnur Þorleifsson var meðal þátttakenda í Sýrlands/Jórdaníuferð 10.-25.apríl. Í þeirri ferð æjum við jafnan í Bagdad Cafe sem er í miðri austureyðimörkinni, á leið til Palmyra. Margir hrífast af þeim stað. Eftir komu þangað orti Sigfinnur:

Bagdad Café

Á Bagdad Café er búið vel
af bræðrum tveim og þeirra konum
og engan stað ég annan tel
ofar standa mínum vonum.

Á Bagdad Café var byrjað smátt
og bjástrað fyrst með nokkrar rollur,
hænur um varpann hlupu brátt
hamingjueggin fylltu dollur.

Á Bagdad Café best ég veit
blessað kaffið mædda hressa
og það er allt í þeirri sveit
þekkilegt eins og hugljúf messa.

Á Bagdad Café er betra líf
en barningur í trylltri veröld,
í stórborgum er stöðugt kíf
stynja okkar sálarkeröld.

Á Bagdad Café var bikar minn
barmafylltur af sálarfriði
og þyrsti mig síðar þangað inn
þá get ég bergt á gömlum miði.

Á Bagdad Café.

Seinna í þessari ferð er vitjað Símonarkirkjunnar sem stendur á hrjóstrugum stað norður af Aleppo. Í frumkristni reisti meinlætamaðurinn Símon sér súlu þar því hann vildi frið til að iðka trú sína.
Eftir að við höfðum verið þar orti sr. Sigfinnur:

Símon á súlunni

Símon var á súlunni
sjödægrin löng
hvergi á jarðarkúlunni
kvölin var jafn ströng.

hvergi á jarðarkúlunni
konur fengu þá
að renna sér á súlunni
síðkvöldum á.

hvergi á jarðarkúlunni
hvorki hér né þar
setið var á súlunni
síðan þetta var.

Símon var á súlunni
en síglaður þó
komst frá jarðarkúlunni
kættist mjög og dó.